Segja stjórnarflokkana hafa ætlað að nota stjórnarandstöðu sem blóraböggul

Stjórnarflokkarnir virðast hafa ætlað frá upphafi að kenna stjórnarandstöðunni um lyktir auðlindamálsins, að því er fram kom í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladótturr, formanns Samfylkingarinnar, á blaðamannafundi sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna efndu til í dag til að fara yfir atburðarrásina og hvernig hún kom þeim fyrir sjónir.

Á fundinum kom fram að eina tillagan að breytingu á stjórnarskrá, sem sátt náðist um í stjórnarskrárnefnd hafi enn ekki komist á dagskrá. Forsætisráðherra sé með hana til umfjöllunar en ekkert bendi til að hún verði afgreidd á þessu þingi, enda hafi ráðherra viljað hafa ákvæðið öðruvísi en stjórnarskrárnefnd lagði til.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna sögðu ekkert samráð hafa verið haft við þá um auðlindafrumvarpið. Þeir vitnuðu í tvö viðtöl við Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokks, í Ríkisútvarpinu þar sem Jón segir aðspurður að ekki hafi komið til greinaa að vinna málið með stjórnarandstöðnni því málið sérist um ákvæði í ríkisstjórnarsáttmálanum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir út í hött, að ætla að kenna stjórnarandstöðunni um þetta. Enginn hafi leitað til hennar með málið, þrátt fyrir að hún hafi boðið ríkisstjórninni í samstarf um málið. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir ljóst að menn hafi aldrei ætlað sér með þetta í gegn. „Þetta er hreinlega eins og uppsett leikrit,” segir Guðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert