Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað vörubílsstjóra af ákæru fyrir að aka með malarfarm án yfirbreiðslu en ekki var talið að hætta hefði stafað af malarfarminum. Maðurinn var hins vegar sakfelldur og dæmdur til að greiða 15 þúsund krónur í sekt fyrir að flytja hrossaskít á bílnum en vatn lak úr skítahlassinu á veginn.
Annar vörubílsstjóri var ákærður fyrir að flytja malarfarm svo að hlassið náði upp fyrir skjólborð bifreiðarinnar og án yfirbreiðslu. Var maðurinn sýknaður fyrir að kúfur á hlassinu náði upp fyrir skjólborð pallsins, en sakfelldur fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir að það fyki úr farminum sem og að flytja malarfarm tveim dögum síðar án yfirbreiðslu og án þess að koma í veg fyrir að farmurinn gæti hrunið aftan af bifreiðinni. Þarf vörubílstjórinn að greiða 25 þúsund krónur í sekt.
Þriðji vörubílstjórinn var ákærður fyrir að hafa ekki yfirbreiðslu yfir malarfarmi sínum við akstur í miklu roki. Var maðurinn sýknaður þar sem ekki var talið að lögfull sönnun hefði komið fram um, að fokið hefði af farminum en myndband úr upptökubúnaði lögreglu sýndi ekki fok.