Háskólinn í Reykjavík hefur ráðið tvo nýja deildarforseta til skólans, og munu þeir stýra annars vegar tölvunarfræðideild og hins vegar tækni- og verkfræðideild. Dr. Ari Kristinn Jónsson, doktor frá Stanford og stjórnandi hjá bandarísku geimferðastofnuninni (NASA) verður deildarstjóri tölvunarfræðideildar og dr. Gunnar Guðni Tómasson, doktor frá MIT og aðstoðarframkvæmdastjóri VST, verður yfir verkfræðideild.
Á meðal þeirra verkefna sem Ari hefur stjórnað hjá NASA má nefna stærsta þróunarverkefni NASA á sviði gervigreindar og sjálfvirkni og þróun forrits til að stjórna sólarrafhlöðum alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Rannsóknir hans hafa skilað sér bæði í fræðilegum niðurstöðum sem og í hagnýtri notkun innan geimferðastofnunarinnar, meðal annars í ferðum til Mars.
Dr. Gunnar Guðni Tómasson hefur starfað sem verkfræðingur hjá verkfræðistofunni VST hf og síðustu árin verið einn eigenda fyrirtækisins og aðstoðarframkvæmdastjóri. Áður starfaði hann við rannsóknarstörf hjá MIT háskólanum og sem dósent við Háskóla Íslands.