Umræða um ESB óviðunandi

Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag, að umræðan um hvort sækjast eigi eftir aðild að Evrópusambandinu sé algjörlega óviðunandi.

„Það er kominn tími til að Íslendingar fái botn í áralanga umræðu um það hvort við ætlum að sækjast eftir aðild að ESB og taka upp evru eða sigla okkar sjó um alllanga framtíð með íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil.

Umræðan um þessi mál hefur verið algjörlega óviðunandi hér á landi. Hún hefur því miður ekki farið fram af neinni yfirvegun og skynsemi. Hún hefur verið sundurlaus og hættuleg. Því miður hefur stundum skort á að menn gæti orða sinna og gefið yfirlýsingar sem hafa verið til þess fallnar að grafa undan trausti gagnvart Íslendingum," sagði Helgi.

Hann sagði að stærri fyrirtæki væru smám saman að segja skilið við krónuna með því að færa fjármál sín yfir í erlenda mynt, eðli viðskiptanna vegna, og nú síðast að færa skráningu hlutabréfa sinna yfir í erlenda mynt. Þetta hefði verið orðað þannig að evran sé að koma inn bakdyramegin.

„Aðrir telja að með inngöngu værum við að framselja yfirráðarétt þjóðarinnar yfir fiskimiðum og öðrum nýtanlegum náttúruauðlindum og gætum misst tökin á efnahagsþróun í landinu. Talað er um að hagvöxtur hafi verið meiri á Íslandi en í Evrópusambandslöndum á liðnum árum og það séu gild rök fyrir því að halda óbreyttri stefnu. Enn aðrir nefna að íslenska krónan sé örmynt sem fái engan veginn staðist til frambúðar. Það vantar rök fyrir ofurstyrk íslensku krónunnar sem veldur útflutningsgreinum búsifjum og eykur einkaneyslu," sagði Helgi og spurði:

„Er ekki rétti tíminn einmitt kominn á Íslandi fyrir vitræna umræðu um Ísland og Evrópu með ákvörðun - af eða á - að markmiði? Er sá tími ekki strax eftir kosningarnar 12. maí? Við lítum þannig á að þessi mál eigi að leiða til lykta á næsta kjörtímabili. Það er sú krafa sem við gerum til þeirra sem verða kjörnir til setu á Alþingi í vor og til þeirrar ríkisstjórnar sem þá verður mynduð. Ef góður meirihluti næst á Alþingi fyrir því að láta reyna á aðildarumsókn á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og sé atvinnulífið og verkalýðshreyfingin því fylgjandi – þá á að láta til skarar skríða fyrr en seinna."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert