Vitnaleiðslum í Baugsmálinu að ljúka

Nú sér fyrir endann á vitnaleiðslum í Baugsmálinu svokallaða eftir um fjögurra vikna yfirheyrslur, en þær síðustu verða n.k. mánudag. Meðal vitna í héraðsdómi í dag var Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins.

Fátt nýtt kom fram við yfirheyrsluna yfir Styrmi í dag, spurt var um aðdraganda þess að Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, tók að sér störf fyrir Jón Gerald Sullenberger.

Aðspurður um tölvupóst til Jónínu Benediksdóttur, þar sem sagði að tryggð Jóns Steinars við ónefndan mann væri innvígð og innmúruð, sagði Styrmir að bréfið hafi verið skrifað í gamansömum tón, þar sem honum hafi þótt það fyndið að efast væri um hæfni Jón Steinars sem lögmanns. Styrmir neitaði að upplýsa hver hinn ónefndi maður væri.

Þá var Styrmir spurður að því hvort honum þætti það ekki sérstakt að hann hefði þurft álit utanaðkomandi aðila, þ.e. Kjartans Gunnarssonar, á Jóni Steinari sem lögmanni í ljósi starfa Jóns fyrir Morgunblaðið. Sagði Styrmir svo ekki vera, hann hefði oft leitað álits manna til mála sem hann hefði þurft að taka afstöðu til og að fleiri menn sæju hlutina í skýrara ljósi, ekki síst menn fjarri vinnustað hans.

Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins mætti ekki í héraðsdóm þar sem ekki náðist í hann til að boða hann, og stendur til að hann komi fyrir dóm á mánudag.

Vitnaleiðslum lýkur á mánudag, og er þá hugsanlegt að sakborningar verði kallaðir til aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert