Íslenska ríkið lét hjá líða að áfrýja til Hæstaréttar dómi héraðsdóms í þjóðlendumálum í austanverðum Mýrdal. Ríkið hefur til þessa áfrýjað þeim þjóðlendudómum sem það hefur tapað fyrir héraðsdómi. Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði þó í samtali við blaðið Sunnlenska að of snemmt væri að tala um algera stefnubreytingu enda hefði hann ekki kynnt sér til hlítar öll þau mál sem bíða hugsanlega áfrýjunar.
„En það er ljóst að við erum að reyna að gera málsmeðferðina sanngjarnari þannig að deilumálum fækki," sagði Árni.
Landið sem um ræðir er í austanverðum Mýrdalshreppi og nær til svokallaðra Dalajarða, Heiðarjarða, Kerlingardals, Höfðabrekku og Hjörleifshöfða. Þar staðfesti Héraðsdómur Suðurlands úrskurð óbyggðanefndar og viðurkennir þar með skráð landamerki þessara jarða og að eignarrétt skuli miða við jökulrönd eins og hún var við gildistöku þjóðlendulaga 1998.
Fram til þessa hefur ríkið áfrýjað þeim málum sem tapast í héraði til hæstaréttar en í vetur hafa stjórnvöld rætt þann möguleika við nýstofnuð samtök landeigenda að milda til muna málsmeðferð þjóðlendumála.