Tiltekið geðlyf ekki fáanlegt í nokkrar vikur

Lyfið Amilín frá Actavis er nú fáanlegt á ný eftir margra vikna bið. Fram kemur á heimasíðu landlæknisembættisins, að geðlæknar og sjúklingar þeirra hafi undanfarnar vikur kvartað yfir skorti á lyfinu Amilín, sem er gamalgróið lyf við þunglyndi. Það inniheldur virka efnið amitriptyline og er ekki skráð hér á landi á öðru formi en Amilín frá Actavis.

Landlæknisembættið segir, að lyfið sé þess eðlis að það taki að jafnaði tvær til fjórar vikur að byrja að virka. Ennfremur geti það valdið ákveðnum aukaverkunum ef því er hætt skyndilega, svo sem svefntruflunum, pirringi og almennri vanlíðan. Skortur á þessu lyfi getur því valdið sjúklingum verulegum óþægindum og tjóni. Vegna eiginleika þungyndislyfja er ekki vænlegt að skipta úr einu þunglyndislyfi yfir í annað.

Landlæknir segir, að málið hafi verið tilkynnt Lyfjastofnun og nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að slíkt komi ekki fyrir aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert