Framtíðarlandið kynnir sáttmála um framtíð Íslands

Andri Snær Magnason kynnir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Andri Snær Magnason kynnir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mbl.is/Sverrir

Félagið Framtíðarlandið kynnti í dag sáttmála um framtíð Íslands sem ráðamönnum og allri íslensku þjóðinni er boðið að staðfesta en sáttmálinn snýst um að unnið verði að umhverfisvernd og framsæknu og fjölbreyttu atvinnulífi á næsta kjörtímabili. Er m.a. gert ráð fyrir að lögfest verði áætlun um náttúruvernd áður en frekar verður aðhafst í orkuvinnslu.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er verndari verkefnisins, sem kynnt var á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Andri Snær Magnason, rithöfundur og María Elllingsen, leikari og stjórnendaþjálfari kynntu verkefnið. Þau sögðu m.a. að ein kynslóð væri að taka of stórar ákvarðanir í umhverfismálum og átök um stóriðju og virkjanir hefðu á undanförnum árum í raun rekið fleyg í þjóðarsálina og valdið klofningi milli landshluta, byggðarlaga og jafnvel fjölskyldna.

Í sáttmálanum eru lands- og ráðamenn hvattir til að staðfesta að þeir hafi kjark til að byggja upp „fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem hugvit og sköpunargleði fari saman" og „axla ábyrgð á tímum viðsjárverðra loftslagsbreytinga í heiminum með því að fylgja alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Margir kunnir einstaklinga voru kynntir sem fyrstu stuðningsmenn sáttmálans. Meðal þeirra eru Sigurbjörn Einarsson, biskup, Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner, Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra, Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, Ólafur Stefánsson, handboltamaður og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskólans.

Á fundinum gagnrýndu forsvarsmenn Framtíðarlandsins m.a. að virkja þyrfti sem svaraði þremur Kárahnjúkavirkjunum á 25 - 30 nýjum svæðum á Íslandi ef núverandi áætlanir um stóriðju gengju eftir. Þá sögðu þeir að ef fram færi sem horfði yrðu 85% af orkuframleiðslu Íslands bundin í álverum til langs tíma. Andri Snær sagði í ræðu sinni að ef öll nýtanleg orka yrði nýtt til stóriðjuframkvæmda myndi það skapa um 2070 störf, eða sem svaraði til 0,69% íslensku þjóðarinnar.

Þá var bent á að miðað við vöxt þjóðarinnar tæki það hana um 50 ár að þurfa orku til jafns við 250.000 tonna álver.

Framtíðarlandið, félag áhugafólks um framtíð Íslands, var stofnað 17. júní í fyrra. Félaginu er ætlað að verða þverpólitískur vettvangur fyrir þá, sem væru í vafa um að framtíðaráform stjórnvalda séu landi og þjóð fyrir bestu. Því er einnig ætlað að upplýsa, gagnrýna og varpa fram hugmyndum til að hafa áhrif á framtíðarmynd Íslands og efla lýðræði og lýðræðislega umræðu á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka