Hellisheiði er lokuð vegna óveðurs

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðs.
Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðs. mbl.is/Halldór

Hellisheiðin er lokuð vegna skafrennings og bendir Vegagerðin fólki á að fara Þrengsli en þar er samt hálka og skafrenningur. Björgunarsveitir voru kallaðar út þegar í morgun til að aðstoða bíla á Hellisheiði og aftur nú síðdegis. Aðstoða þurfti sjúkrabíl að komast þurfti yfir heiðina sem og aðra bíla sem áttu í vandræðum.

Þá er ekkert ferðaveður á milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafirði og ekki heldur í Mývatnssveit.

Ófært er yfir Holtavörðuheiði og Bröttubrekku og er fólki bent á að fara Laxárdalsheiði og Heydal. Lögregla óskaði um hádegisbil eftir aðstoð björgunarsveita til að losa bíla sem fastir voru á Holtavörðuheiði. Tvær sveitir fóru til aðstoðar og aðstoðuðu um tug bifreiða sem fastar voru á heiðinni. Einnig fór björgunarsveit frá Borgarnesi og sótti norskan ferðmann og bifreið hans sem föst var við Ölver.

Víkurskarð er ófært og beðið er átekta með mokstur og snjóflóð lokar Súðavíkurhlíð. Slæmt veður er á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi, víðast hvar hálka, hálkublettir, éljagangur og skafrenningur og ótryggt veðurútlit framundan.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill beina því til fólks að leggja ekki í ferðalög, og þá sérstaklega ekki á heiðar, á illa útbúnum smábílum þegar veður er slæmt en dæmi voru um slíkt í aðgerðum dagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert