Víkurskarð er lokað og er ekki búist við því að þar verði ferðaveður a.m.k. næsta klukkutímann. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er þar ekki mikil ofankoma en mjög blint og skafrenningur. Árekstur varð fyrr í dag í Víkurskarði þar sem bifreið rakst á snjóplóg, engin meiðsl urðu á fólki, en bíllinn er nokkuð skemmdur.
Björgunarsveitin á Svalbarðsströnd var fengin til að aðstoða lögreglu og var farið niður með um fimmtán bíla sem lent höfðu í vandræðum. Var þá svo blint að lögreglumaður þurfti að ganga á undan svo ratað yrði.
Holtavörðuheiði er ófær og er enn verið að aðstoða bíla niður sunnanmegin sem lent hafa í ógöngum á heiðinni. Nokkuð hefur verið um óhöpp þar, en engin þó alvarleg. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Borgarnesi er útlit fyrir að veðrið standi í allan dag.
Það er hálka og él eða skafrenningur víða í nágrenni Reykjavíkur, hálka og hálkublettir á Suðurlandi, jafnvel þæfingsfærð sumstaðar á fáförnum vegum.
Brattabrekka er ófær. Þar er vonskuveður og óvíst um mokstur. Fólki er því ráðlagt að fara frekar um Heydal.
Á Vestfjörðum er hætt við mokstur á Klettshálsi vegna veðurs. Snjóflóð lokar veginum í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi. Búast má við einhverri snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.
Á Austurlandi er víða skafrenningur. Öxi er ófær og þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði.