Umferðarslys varð á í gær á Vesturlandsvegi við Vogatungu. Tildrög voru þau, að ökumaður bifreiðar ætlaði að beygja út af Vesturlandsveginum en þurfti að stöðva vegna umferðar. Tvær aðrar bifreiðar voru stöðvaðar fyrir aftan hana þegar fjórða bifreiðin kom að. Ökumaður hennar uggði ekki að sér þannig að til að lenda ekki aftan á kyrrstæðu bifreiðunum sveigði hann yfir á öfugan vegahelming og í rakst á bifreið sem kom á móti.
Farþegi úr öðrum bílnum var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en reyndist ekki mikið meiddur. Báðir bílarnir voru mikið skemmdir.
Lögreglan á Akranesi segir, að mikil hálka hafi verið á vettvangi og skapaðist hætta vegna þess að ökumenn bíla, sem að komu, höguðu akstri alls ekki miðað við aðstæður.
Lögreglan segir, að blá blikkljós hafi logað á lögreglubíl á vettvangi og sést langt að. Þó hafi allmargir ökumenn ekki dregið úr hraða fyrr en þeir voru nánast komnir að slysstaðnum. Lentu þó nokkrir í vandræðum með að stöðva og lentu þrír ökumenn utan vegar í viðleitni sinni við að draga úr ökuhraða allt of seint.