Íslendingur í haldi í Hebron

Óstaðfestar fréttir hermdu í gærkvöldi að tvítugur Íslendingur, Haukur Hilmarsson, hefði verið handtekinn í Hebron á Vesturbakkanum í gær.

Talsmaður mannréttindahreyfingar í Hebron sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að Haukur hefði verið staddur á stað þar sem palestínsk ungmenni hefðu grýtt ísraelska lögreglumenn síðdegis í gær. Lögreglumennirnir hefðu þá ráðist að ungmennunum og Haukur reynt að ganga á milli ásamt danskri konu. Lögreglumennirnir handtóku þau og færðu þau á næstu lögreglustöð.

Samkvæmt síðustu fréttum hafði Haukur verið í haldi lögreglunnar í fjórar klukkustundir.

Þessi frásögn hafði ekki verið staðfest í gærkvöldi. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína, kvaðst ekki hafa frétt af því að Haukur hefði verið handtekinn. Hann sagði að Haukur væri ekki á Vesturbakkanum á vegum félagsins.

Aðspurður sagði Sveinn Rúnar að Hauki kynni að verða vísað úr landi. Ísraelsk yfirvöld teldu sig hafa rétt til að grípa til slíkra aðgerða þar sem þau litu svo á að Vesturlandabúar hefðu ekki leyfi til að vera á Vesturbakkanum.

Heimildir Morgunblaðsins hermdu að Haukur hefði verið nýkominn til Hebron frá Bretlandi þegar hann var handtekinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert