Á fundi menntaráðs Reykjavíkurborgar í dag var samþykkt að mælast til þess við borgarráð að hefja þegar viðræður við menntamálaráðuneytið um að borgin taki við rekstri eins framhaldsskóla í Reykjavík. Í tillögunni er gert ráð fyrir að skipaður verði starfshópur um verkefnið með fulltrúum Menntasviðs og menntaráðs Reykjavíkur.
Í greinargerð með tillögunni segir að heildstæð skólastefna styrki samstarf grunn- og framhaldsskóla og mæti betur þörfum nemenda og forráðamanna þeirra við að skipuleggja nám þar sem áhugi og hæfileikar hvers og eins fái notið sín. Lúti skólarnir lögmálum nærþjónustunnar sé auðveldara að mæta þörfum einstaklings og samfélags, mynda samfellu í skólastarfi, þróa nýjar leiðir og áherslur í námi og kennslu. Upplýsingaflæði og notendasamráð verði einnig skilvirkara.
Í greinargerðinni segir enn fremur að víða í borginni, einkum í Breiðholti og miðborginni, sé vaxandi fjölmenningarsamfélag. Grunnskólar hafi stöðugt leitað leiða til að koma til móts við nemendur af erlendu bergi brotnu. Í þessum skólum liggi verðmæt þekking, sem myndi í ríkara mæli skila sér inn í framhaldsskólann til mikilla hagsbóta fyrir nemendur af erlendum uppruna.