Um 30-40% ábendinga barnaklám

Um 50 ábendingar um ólöglegt efni á netinu berast að jafnaði til Barnaheilla á mánuði. Í 30-40% tilvika má telja að um barnaklám sé að ræða, þ.e. efni sem sýnir kynferðislegt ofbeldi í garð barna.

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir allnokkrar ábendingar hafa borist frá foreldrum vegna klámauglýsinga á tölvuleikjasíðum, sem tengdar eru íslenskum leikjasíðum, sem og á öðrum síðum. Ekki sé þó hægt að sakast við þá sem reka íslensku leikjasíðurnar þar sem þeir tengi við þær erlendu í góðri trú um að þar sé aðeins leiki að finna og eigendur þeirra gæti siðgæðis í vali á auglýsendum.

Ábendingarnar berast í gegnum Ábendingalínuna, sem er hluti af verkefni Barnaheilla, Stöðvum barnaklám á Netinu. Petrína segir ábendingar einnig berast vegna annars konar efnis, ekki aðeins klámkennds myndefnis eða barnakláms, heldur t.d. brandara sem þyki verulega ósiðlegur. Þá sé ekkert annað hægt að gera en höfða til siðferðiskenndar þess sem setti brandarann á netið og biðja hann að fjarlægja færsluna, þar sem hún sé ekki lögbrot.

Petrína segir vefmyndavélar nú bjóða hættunni heim, börn fari á netið í góðri trú og oftast til að leika sér og lendi þar ef til vill á spjalli við einhvern fullorðinn sem siglir undir fölsku flaggi. Hann geti beðið börnin um að taka myndir af sér með vefmyndavélinni eða sjálfur sent ósiðlegar myndir.

Netnotkun er gríðarlega mikil á Íslandi og samkvæmt SAFT-könnun árið 2003 eiga 99% barna aðgang að Netinu. Um 87% foreldra segjast sitja hjá börnum sínum þegar þau vafra um Netið en einungis um 22% barnanna segja að svo sé. Petrína segir þetta sýna að foreldrar viti ekki nógu vel hvað börnin þeirra eru að gera á Netinu og mikilvægt sé að breyta því. Netþjónustuaðilar verði líka að koma inn í baráttuna við barnaklám og klámefni sem birtist börnum að óvöru og óumbeðnu. Barnaheill hafi einnig áhuga á að settar verði síur á vafasamar vefsíður líkt og gert sé í Noregi.

Þörf er á vitundarvakningu í samfélaginu að mati Petrínu. Almenningur verði að beita sér fyrir því að stöðva barnaklám á netinu með tilkynningum, menn innan tæknigeirans sjái um að gera það með milligöngu lögreglu og svo verði stjórnvöld að beita sér með lagasetningu og öðrum aðgerðum. Alþjóðalögreglan Interpol sé með sérdeild helgaða upprætingu og rannsóknum á slíku efni og barnaklámshringjum sem framleiða það.

Petrína segir Interpol með um 500.000 myndir á skrá hjá sér af 20-30.000 börnum, en aðeins séu upplýsingar um að 500 þeirra barna hafi fundist og þeim verið veitt hjálp. Mikilvægt sé að ekki sé eingögnu einblínt á að finna brotamanninn heldur einnig að finna börnin sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og veita þeim tilhlýðilegan stuðning. Í því sambandi er alþjóðlegt samstarf lögreglu mjög mikilvægt.

Nánar má lesa um þessi mál í Morgunblaðinu á morgun.

Vefsíða Barnaheilla

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert