Vitnaleiðslum lokið í Baugsmálinu

Vitnaleiðslum lauk í Baugsmálinu svonefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur nú á sjötta tímanum og kom fram, að 91 maður hefði borið vitni, þar af þrír sakborningar. Málflutningur hefst 26. mars en 23. mars ætlar Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, að leggja fram rafræn gögn í málinu.

Ingibjörg Pálmadóttir, sambýliskona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var á meðal vitna í dag. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, spurði m.a. hvort hún hefði haft lögmann árið 2002 og reyndist svo vera. Sagði Ingibjörg að það hafi verið Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi hæstaréttardómari, og að hann hafi vitað af sambandi þeirra Jóns Ásgeirs.

Gestur spurði þá um viðbrögð Ingibjargar þegar hún uppgötvaði að Jón Steinar hafi verið Jóni Geraldi innan handar á fyrstu stigum Baugsmálsins. Ingibjörg sagðist hafa spurt Jón Steinar hvers vegna hann vísaði Jóni Gerald ekki á annan lögmann, og hafi Jón Steinar sagt, að það væri vegna þrýstings frá svo mörgum mönnum.

Jón Ásgeir bar einnig vitni í dag og var spurður út í 19. ákærulið, en í honum er Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, gefið að sök að hafa dregið að sér fé Baugs, með því að láta félagið greiða reikninga sem stöfuðu af einkanotkun hans á American Express greiðslukorti, sem var gefið út á Nordica, félag Jóns Geralds.

Jón Ásgeir sagðist hafa gefið leyfi fyrir kortinu og að Jón Gerald hafi fengið skýr skilaboð um að sundurliða reikninga þannig að Baugur greiddi ekki fyrir einkanotkun.
Jakob Möller, verjandi Tryggva, spurði einnig hvort Tryggvi hefði haft heimild til að kaupa geisladiska með kortinu, og hvort þeir hefðu verið notaðir í þágu fyrirtækisins. Sagðist Jón Ásgeir hafa gefið leyfi og væri sjálfur sekur um að hafa hlustað á þá.

Vitnaleiðslum lauk í Baugsmálinu í dag.
Vitnaleiðslum lauk í Baugsmálinu í dag. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert