Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring en grófustu brotin voru framin í Árbæ og Grafarvogi. Tæplega þrítug kona var stöðvuð í Hraunbæ síðdegis en bíll hennar mældist á 64 km hraða. Í umræddri götu er 30 km hámarkshraði og því má konan búast við ökuleyfissviptingu í einn mánuð og 30 þúsund króna sekt, að sögn lögreglu.
Um miðnætti stöðvuðu lögreglumenn för 18 ára pilts á Víkurvegi en þar 50 km hámarkshraði. Bíll hans mældist á 113 km hraða og því á pilturinn yfir höfði sér ökuleyfissviptingu í tvo mánuði og 90 þúsund króna sekt.
Þrjátíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt en í einu þeirra var ekið á hæðarslá í Hvalfjarðargöngum. Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir að aka undir áhrifum lyfja.
Nokkrir aðrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir ýmsar sakir. Þar á meðal einn sem hirti ekki um að skafa af bílrúðunum en fyrir vikið setti hann bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í hættu því útsýni hans var mjög takmarkað, svo ekki sé nú meira sagt. Fyrir trassaskapinn fær hinn sami 5 þúsund króna sekt en hún á við um hélaðar rúður á ökutæki. Um það má lesa í 59. gr. reglugerðar um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.