Árið 2006 fæddust 4415 börn hér á landi, 2258 drengir og 2157 stúlkur. Þetta eru fleiri fæðingar en árið 2005 en þá fæddust hér 4280 börn, að sögn Hagstofunnar. Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2006 mældist frjósemin 2,07 börn á ævi hverrar konu samanborið við 2,05 börn ári fyrr. Undanfarin áratug hefur frjósemi verið nokkuð stöðug hér á landi, lægst varð hún 1,9.
Hagstofan segir, að í allflestum löndum Evrópu sé frjósemi umtalsvert lægri en á Íslandi og verði fólksfjölgun þar einkum vegna streymis aðkomufólks. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins er einungis eitt Evrópuland með meiri frjósemi en Ísland, þ.e. Tyrkland en þar var frjósemi 2,2.
Hagstofan segir, að lækkuð frjósemi hafi haldist í hendur við hækkaðan meðalaldur mæðra. Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar var meðalaldur frumbyrja tæplega 22 ár. Eftir það hækkaði meðalaldur frumbyrja ört, var 23,3 árið 1986, 25 ár tíu árum síðar en er nú 26,4 ár. Sífellt fátíðara verður að konur eigi börn áður en þær ná 25 ára aldri.
Fram undir 1980 var algengasti barneignaraldurinn 20–24 ár en lækkun fæðingartíðni er mest áberandi í þessum aldurshóp kvenna. Unglingamæðrum hefur einnig fækkað jafnt og þétt á þessu tímabili. Samanborðið við nágrannalöndin var fæðingartíðni hér á landi lengi vel afar há meðal kvenna undir tvítugu. Árin 1961-1965 var hún yfir 83,9 af 1000 í aldurshópnum 15–19 ára en er nú aðeins 13,6 af 1000. Nú er algengasti barneignaraldurinn 25–29 ára en í þeim aldurshópi hefur fæðingartíðnin haldist stöðug undangengin 30 ár. Í aldurshópunum 30–34 ára og 35–39 ára lækkaði fæðingartíðni á milli 1960 og 1980. Undanfarinn aldarfjórðung hefur frjósemi kvenna í þessum aldurshópum hækkað talsvert.