Nokkur hundruð farþegar á vegum ferðaskrifstofunnar Heimsferða bíða þess nú á Íslandi, Spáni og Kanaríeyjum að komast til áfangastaða sinna en bilun sem varð í vél á vegum félagsins í Barcelona í nótt olli keðjuverkun sem veldur því að þremur flugferðum seinkar um allt að hálfan sólarhring. Hátt í fimmhundruð manns eiga bókað flug í þessum þremur ferðum.
Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir mjög bagalegt hversu mikil töfin sé orðin en að allt hafi verið gert til að reyna að koma í veg fyrir að hún yrði jafn mikil og raun ber vitni. Þá segir hann að enn sé unnið að því að fá aukavél til að koma farþegum sem fyrst til áfangastaða sinna.
Samkvæmt upplýsingum Tómasar fór vélin héðan til Barcelona klukkan 18:15 í gær og lenti hún samkvæmt áætlun í Barcelona. Þegar verið var að undirbúa hana undir heimferð kom hins vegar upp bilun í henni. Boð um bilunina bárust fyrst hingað til lands á milli klukkan tvö og þrjú í nótt og var þá farið í að leita að leiguvél til að flytja farþegana heim. Það gekk ekki en farþegum, sem eru á milli 170 og 180, var komið fyrir á hóteli. Viðgerð á vélinni er nú lokið en vegna lögbundins hvíldartíma áhafnarinnar kemst hún í fyrsta lagi í loftið klukkan 14:15 í dag.
Þá áttu 180 farþegar að fara héðan með sömu flugvél til Fuerta Ventura á Kanaríeyjum í morgun. Þeirri ferð var frestað í nótt þegar ljóst var að vélin kæmist ekki heim frá Barcelona í tæka tíð. Tilkynning um það var birt á Textavarpinu á milli klukkan tvö og þrjú en mæting á Keflavíkurflugvelli var klukkan fimm í morgun. Tómas segir eitthvað hafa verið um að farþegar mættu til innritunar en að flestir hafi þó séð tilkynninguna á Textavarpinu og hringt til að fánánari upplýsingar. Ekki hafi hins vegar gefist tími til að láta farþega vita með öðrum hætti. Enn er unnið að því að fá aðra vél til að fljúga með farþegana en ljóst er að brottför getur í fyrsta lagi orðið undir kvöld.
Hátt í tvö hundruð farþegar bíða þess einnig á Fuerta Ventura að komast heim. Hafa þeir þurft að skila af sér íbúðum sínum og hótelherbergjum en Tómas segir ferðaskrifstofuna hafa orðið sér úti um nokkrar íbúðir þar sem farþegarnir geti haft athvarf á meðan þeir bíði þess að komast heim.