Aukin velmegun og feðraorlof þykja líklegar ástæður þess að Íslendingar eru nú næstfrjósamasta Evrópuþjóðin, á eftir Tyrkjum. Í fyrra fæddust 2,07 börn á ævi hverrar íslenskrar konu, sem er örlítil hækkun frá fyrra ári en þá var frjósemin 2,05 börn, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.
Fréttavefur Morgunblaðsins leitaði álits ljósmóður við Landspítala-háskólasjúkrahús og nefndi hún fyrrnefndar ástæður, eða aðstæður, fyrir aukinni barneign þjóðarinnar. Þó skal tekið fram að aukningin er það lítil að hún er vart mælanleg, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Íslensku þjóðinni fjölgar meir vegna fjölda innflytjenda en vegna náttúrulegrar fjölgunar, þ.e. mismunar fæddra og dáinna.
Þá hefur meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barns hækkað mikið frá árinu 1961. Þá voru konur að meðaltali 22 ára þegar þær áttu sitt fyrsta barn en í fyrra 26,4 ára.