Þingmönnum hafði í gær borist fjöldi áskorana um að skrifa undir sáttmála Framtíðarlandsins. Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn eru nú orðnir „grænir", en auk þeirra hefur Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skrifað undir.
„Að sjálfsögðu mun ég við tækifæri taka einhverja afstöðu til þess efnis sem í póstinum var," segir Guðjón Arnar Kristjánsson. Hann var þó ekki sáttur við leiðina sem farin var til að vekja athygli hans en hann hafði fengið um hundrað áskoranir í tölvupósti.
„Mér finnst sjálfsagt að félagasamtök sendi manni póst og biðji mann að skoða hann, en hins vegar er óþarfi að drekkja pósthólfinu manns með sömu skilaboðunum til að afgreiða sama málið."