Reykjavíkurborg stefnir að því að greiða niður langtímaskuldir

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Morgunblaðið/ Sverrir

Samkvæmt þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar er miðað við, að skatttekjur, þjónustutekjur og fjármunatekjur frá dótturfélögum standi undir rekstri Aðalsjóðs og langtímaskuldir verði greiddar niður á tímabilinu. Miðað er við, að íbúar Reykjavíkurborgar verði orðnir 121.734 talsins árið 2010.

Árið 2007 er áætlað að 14 milljarða króna afgangur verði af rekstri A hluta Reykjavíkurborgar. Auk sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun, skýrist afgangurinn af sölu eigna og byggingaréttar í Eignasjóði og Skipulagssjóði.

Á áætlunartímabilinu 2008-2010 er gert ráð fyrir samtals um 19,5 milljarða rekstrarafgangi A hluta fyrir fjármagnsliði. Áætluð sala byggingaréttar hefur hér mest áhrif og bætt afkoma Aðalsjóðs vegur þungt. Rekstrarafgangur eftir fjármagnsliði er áætlaður 25,3 milljarðar á áætlunartímabilinu, þ.e. 6,9 milljarðar árið 2008 eða 12,2% af heildartekjum, 10,2 milljarðar eða 16,7% af heildartekjum árið 2009 og 8,2 milljarðar eða 13,4% árið 2010.

Áætlað er að rekstrargjöld A hluta hækki frá árinu 2007 til 2010 um 7,1%. Þar af er áætlað að launakostnaður lækki um 0,7% sem skýrist einkum af lækkun á lífeyrisskuldbindingu. Á sama tíma er áætlað að annar rekstrarkostnaður hækki um 15,7%. Afskriftir hækka á tímabilinu um 19%, en vegna breytinga á útreikningi á húsaleigu lækka þær til að byrja með en fara síðan hækkandi. Stærstur hluti hækkunar árið 2010 skýrist af nýju húsnæði sem tekið verður í notkun á tímabilinu.

Frumvarp að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert