Borgarstjórnarflokkar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista segja, að Reykjavíkurborg muni taka á sig gráan lit á næstu árum ef þriggja ára áætlun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gangi eftir. Fækka eigi störfum um mörg hundruð á sama tíma og fólk vanti til starfa við uppeldi, menntun og velferðarþjónustu. Fjárfesta eigi í götum og öðrum mannvirkjum en ekki sé að finna fjármagn í fögur loforð um stóraukna þjónustu við aldraða.
Í tilkynningu frá minnihlutaflokkunum í borgarstjórn segir, að framlög til fasteigna aukist um tæpan milljarð milli ára eða 25% hækkun í steypu og tæp 50% hækkun sé á framlögum til gatnagerðar. 6,4% lækkun sé hinsvegar á framlagi til umhverfissviðs á sama tíma og borgarstjóri tali um sérstaka áherslu á umhverfismálin. Umhverfissvið tekur á sig langmesta lækkun allra fagsviða og því eðlilegt að spurt sé hvar eigi að skera niður í umhverfismálum þegar talað sé um sérstakar áherslur.
Þá ríki mikil óvissa í starfsmannamálum. Gjöld til launa og launatengdra gjalda A-hluta lækki úr rúmum 31 milljarði í 27 milljarða. Lækkun sé um 4 milljarða á tímabilinu sem skýrist að einhverju leyti af lífeyrisskuldbindingum en áhersla verður á aðhald í starfsmannamálum. Þetta sé undarlegt í ljósi þess að það vantar fólk til starfa í heima- og stuðningsþjónustu, í skólum, leikskólum og frístundaheimilum.
Segja skuldir vaxa
Þá segja minnihlutaflokkarnir, að heildarskuldir A- og B-hluta borgarsjóðs séu í ár 128 milljarðar en verði 168 milljarðar árið 2010. Það er hækkun heildarskulda um 40 milljarða á þremur árum og skuldir án lífeyrisskuldbindinga hækki um 50 milljarða á sama tímabili.