Það er vonskuveður víða á Vesturlandi og Norðurlandi vestra, ekki ferðaveður og versnandi færð. Það er stórhríð á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Þá er óveður á Holtavörðuheiði, þar er hálka og mikill skafrenningur.
Snjóflóð lokar Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og varað er við snjóflóðahættu á Óshlíð. Á Vestfjörðum er annars víða hálka en Eyrarfjall er ófært.
Á Norðurlandi er versnandi veður, óveður á Vatnsskarði en hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði. Það er víðast hvar góð færð á Austurlandi þótt sumstaðar séu hálkublettir og skafrenningur, einkum á heiðum. Öxi er þó ófær, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.