Þjónustusamningur ríkisins við SÁÁ, sem rann út í desember 2005, hefur ekki enn verið endurnýjaður. Hefur Ríkisendurskoðun ítrekað mikilvægi þess að það verði gert sem fyrst. Þórarinn segir að ríkið hafi ekki lýst vilja til að „leysa málið með auknu fjármagni sem neinu nemur". Framlag til SÁÁ hafi minnkað um 40 milljónir milli áranna 2005 og 2006, sé miðað við verðlag í janúar 2007. "Það hafa heldur ekki komið tillögur um hvað heilbrigðisráðuneytið treystir sér til að kaupa af þjónustunni."
Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, sagði í samtali við Morgunblaðið í febrúar að fram hefði komið hjá innlendum og erlendum ráðgjöfum, sem skoðað hefðu áfengismeðferð hér á landi, að lækka mætti kostnað við starfsemi SÁÁ með því að draga úr innlögnum áfengissjúkra og auka áherslu á göngu- og dagdeildir. Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri SÁÁ, segir í grein í Morgunblaðinu á laugardag, að engin haldbær rök liggi til grundvallar þessari fullyrðingu. Þórarinn Tyrfingsson segir hugmyndir Davíðs varla til umræðu á þessu stigi málsins. „Það þarf að semja um þá þjónustu sem í landinu er, síðan geta menn farið að vinna að einhverjum slíkum áherslubreytingum eða breytingum á meðferðinni til framtíðar."