Álíka margir ánægðir og óánægðir með að hvalveiðar skuli hafnar

Hvalur skorinn í Hvalfirði sl. haust.
Hvalur skorinn í Hvalfirði sl. haust.

Álíka margir eru ánægðir og óánægðir með þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra, að leyfa veiðar á hvölum í atvinnuskyni á síðasta ári. Þetta kemur fram í könnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og International Fund for Animal Welfare nýlega.

Samkvæmt könnuninni sögðust samtals 42% aðspurðra vera mjög ánægð eða frekar ánægð með ákvörðunina og 40% sögðust mjög óánægð eða frekar óánægð. 18% tóku ekki afstöðu. Munur á fylkingum er innan skekkjumarka.

Könnunin var gerð dagana 14.-26. febrúar og var úrtakið 1300 manns á aldrinum 16-75 af öllu landinu. Endanlegt úrtal var 801 og svarhlutfall 61,6%.

Lesa má út úr könnuninni að karlar séu ánægðari með ákvörðun um hvalveiðar en konur og einnig er ánægjan meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Sagt er frá könnuninni á vefsíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands. Þar segir einnig, að flest bendi til að ekki verði hægt að flytja út hvalkjöt til Japans. Reynist það rétt sé þess að vænta að þeim muni fjölga, sem séu óánægðir með hvalveiðistefnu Einars K. Guðfinnssonar.

Heimasíða Náttúruverndarsamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka