Faxaflóahafnir vilja koma að framkvæmdum við Sundabraut

Teikning af hugsanlegri legu Sundabrautar.
Teikning af hugsanlegri legu Sundabrautar.

Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur sent forsætisráðherra og samgönguráðherra bréf þar sem lýst er eindregnum vilja til að koma að framkvæmdum við Sundabraut. Björn Ingi Hrafnsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna, sem lagði fram tillögu þessa efnis á stjórnarfundi í dag, segir vilja til þess að Faxaflóhafnir ljúki framkvæmdum í einum áfanga á 3-5 árum.

Björn Ingi segir, að það hafi verið eitt af markmiðum eigenda Faxaflóahafna þegar félagið var stofnað, að hraða gerð Sundabrautar. Félagið hafi rætt þetta mál við stjórnvöld og Vegagerðina. Nú sé tímabært að taka endanlega ákvörðun um legu brautarinnar og hefja framkvæmdir. Hann telur langlíklegast að gerð verði jarðgöng frá Sundabraut yfir í Gufunes. Kannanir bendi til þess að sá kostur sé hagkvæmari en áður var talið.

Eftir sölu Símans voru lagðir fjármunir til hliðar vegna Sundabrautar. Björn Ingi segir að þótt Faxaflóhafnir taki að sér að framkvæma verkefnið verði fjármögnun eftir sem áður í höndum ríkisins enda sé gert ráð fyrir því í lögum að ríkissjóður kosti gerð þjóðvega í þéttbýli. Sömuleiðis verði stjórnvöld að taka ákvörðun um hvort lögð verði gjöld á umferð um Sundabraut. Hann segir að viðræður Faxaflóahafna og stjórnvalda um þetta mál muni m.a. snúast um umfang verkefnisins, tímalengd og aðferð við endurgreiðslu kostnaðar.

Björn Ingi segist ekki reikna með öðru en að stjórnvöld taki vel í erindi Faxaflóahafna. Að Faxaflóahöfnum standi öll sveitarfélög á svæðinu og mikil samstaða hafi verið í stjórninni um að óska formlega eftir því að taka þetta verknefni að sér.

Fram að þessu hefur aðallega verið rætt um að leggja Sundabraut í þremur áföngum, en Björn Ingi segir hugmyndir Faxaflóahafna ganga út á að ljúka verkefninu í einum áfanga. Það auk hagkvæmni þess verulega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert