Fjölmenningarspjall á Alþjóðadegi gegn kynþáttamisrétti

Mikið var um að vera í Smáralind í dag í …
Mikið var um að vera í Smáralind í dag í tengslum við Alþjóðadaginn gegn kynþáttamisrétti. mbl.is/Brynjar Gauti

Í dag tóku keppendur í X-factor höndum saman við Mannréttindaskrifstofu Íslands, Þjóðkirkjuna Alþjóðahús, Amnesty International, Rauða krossinn, Ísland Panorama, ÍTR, Jafningjafræðslu Hins hússins, Soka Gakkai Íslandi og Múltíkúltí um viðburð í Smáralind gegn kynþáttamisrétti. Keppendurnir sungu og ungt fólk bauð upp á fjölmenningarspjall, sælgæti og barmmerki.

Nú stendur yfir Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti sem hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21.mars. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi daginn í minningu 69 mótmælenda myrtir voru 21. mars 1960 er þeir mótmæltu aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku, að því er segir í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Evrópuvikan miðar að því að uppræta mismunun, fordóma og þjóðernishyggju í álfunni og stuðla þannig að umburðarlyndu Evrópusamfélagi þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.

Fram kemur í tilkynningu að kynþáttamisrétti á Íslandi birtist helst í útlendingafælni og duldum fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna. Fordómarnir birtist einkum í hversdagslífinu - þegar talað sé niður til þeirra sem ekki eru skilgreindir sem ,,hreinir” Íslendingar; fólki sé meinaður aðgangur að skemmtunum, það fái lakari þjónustu og atvinnu, sé tortryggt og þurfi jafnvel að þola að stjakað sé við því og hreytt í það ókvæðisorðum á almannafæri.

Þá segir að á síðustu mánuðum hafi málefni innflytjenda verið ofarlega á baugi og það sé áhyggjuefni hversu borið hafi á fordómum, útlendingafælni og þjóðernishyggju í umræðunni.

„Í árslok 2006 voru erlendir ríkisborgarar 6% af heildarmannfjölda á Íslandi; það er staðreynd að íslenskt samfélag er fjölmenningarlegt og því verður ekki breytt. Til að vinna gegn misrétti og fordómum í garð fólks af erlendum uppruna á Íslandi taka Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjan, Alþjóðahús, Amnesty International, Rauði krossinn, Ísland Panorama, ÍTR, Jafningjafræðsla Hins hússins, Soka Gakkai Íslandi og Múltíkúltí, menningarmiðstöð húmanista, þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti með ýmsum hætti,“ segir í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert