Að sögn lögreglunnar hefur nokkuð borið á veggjakroti á höfuðborgarsvæðinu. Piltar virðast einkum vera gerendur í málum sem þessum en einn var staðinn að verki í gær. Sá hafði krotað á hurð hjá stofnun í borginni en pilturinn, sem er 15 ára, játaði sök því sem næst undanbragðalaust. Málið var svo leyst á staðnum en piltinum var gert að þrífa veggjakrotið af hurðinni, segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan segir piltinn vonandi hafa lært sína lexíu en veggjakrot er dýrt spaug. Það kosti skattborgarana milljónir króna á hverju ári að þrífa krotið af mannvirkjum hér og þar í borginni. Og þetta séu fjármunir sem koma m.a. úr vasa foreldra veggjakrotaranna sjálfra.