Kona á fimmtugsaldri lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi við Kotströnd, skammt austan Hveragerðis í hádeginu í dag. Slysið varð með þeim hætti að jeppabifreið, sem konan ók, og flutningabifreið skullu saman en bifreiðarnar komu úr gagnstæðum áttum. Ökumaður flutningabifreiðarinnar var fluttur á sjúkrahús en hann er ekki talinn alvarlega slasaður.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi verður Suðurlandsvegur opnaður á ný um fjögurleytið en lögregla er að störfum á slysstað og hefur Suðurlandsvegur verið lokaður í báðar áttir frá því í hádeginu. Er ökumönnum bent á að aka Hvammsveg en þar sem þungatakmarkanir eru á þeim vegi er ökumönnum flutningabifreiða bent á að aka Þrengslaveg.