"Mjólkursamsalan ætlar að beita afli gagnvart Mjólku"

„Það er undarlegt að nú skuli loksins mjólkuriðnaðurinn, þegar komin er samkeppni á þessum markaði, eiga frumkvæði að þessari umræðu. Það hefur lengi verið baráttumál manna að opinber verðlagning á þessum vörum verði afnumin," segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku ehf., í tilefni af þeim ummælum Guðbrands Sigurðssonar, forstjóra Mjólkursamsölunnar, að tímabært sé að opinber verðlagning á mjólk verði felld niður.

Ólafur segir að framferði Mjólkursamsölunnar gagnvart Mjólku, bæði í viðskiptum við bændur og á markaði, hafi verið með ólíkindum.

„Það er ljóst að Mjólkursamsalan ætlar að beita sínu afli gagnvart Mjólku í þessu tilliti. Við höfum orðið áþreifanlega varir við það vegna þess að Mjólkursamsalan hefur verið að bjóða vörur sínar með afslætti sem hefur verið allt að 40% í einstöku tilfellum gagnvart sínum viðskiptavinum. Þessi niðurboð koma mjög illa við okkur sem erum að koma inn á þennan markað og það er óþolandi að fyrirtæki sem er í einokunarstöðu skuli nýta afl sitt með þeim hætti sem Mjólkursamsalan gerir gagnvart Mjólku," segir Ólafur.

Hann segir einnig alveg ljóst að ef Mjólkursamsalan komi því í kring að verðmynduninni verði breytt í einni hendingu muni það bara þýða endanlok virkrar samkeppni í þessari grein. Ef forystumenn íslenska mjólkuriðnaðarins séu að kalla á breytingar á verðmynduninni, þá hljóti menn að skoða ríkisstuðninginn samhliða og afnema hann í leiðinni. "Ef Guðbrandur er að boða að ríkisstuðningur verði afnuminn þá hljóta íslenskir skattborgarar að fagna."

Mjólka var stofnuð fyrir rúmum tveimur árum og rekur mjólkurframleiðslu í eigin búi á Eyjum II í Kjós og mjólkurstöð sem sérhæfir sig í framleiðslu á ostum og öðrum mjólkurafurðum fyrir innanlandsmarkað.

Ólafur segir að Mjólkursamsalan virðist eiga sérstakan aðgang að stjórnvöldum. Mjólkuriðnaðurinn hafi fengið lagasetningu sem sé hróplega skrýtin. Hér leyfist hegðun sem sé talin brotleg í öllum öðrum atvinnurekstri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka