Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag samhljóða ályktun, þar sem fagnað er því frumkvæði stjórnar Faxaflóahafna sf. að lýsa yfir eindregnum áhuga og vilja fyrirtækisins til að koma að framkvæmdum við Sundabraut, fjármagna og leiða þær til lykta.
Í ályktun borgarráðs er minnt á, að við stofnun Faxaflóahafna hafi það m.a. verið eitt af markmiðum eigenda fyrirtækisins að hraða gerð Sundabrautar.
Þá lýsir borgarráð jafnframt yfir ánægju með jákvæð viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar við framkomnum hugmyndum Faxaflóahafna og segist vænta þess að málið komist nú á fulla ferð og framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst.