Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði banaslysum gífurlega í fyrra miðað við árið 2005, 13 létust í umferðinni í borginni sem eru jafnmargir og á samanlögðum fjórum árum þar á undan. Banaslysum í umferðinni á landinu öllu fjölgaði einnig mjög mikið, um 12 í fyrra miðað við árið á undan, úr 16 í 28 og lést 31 í þeim slysum. Ekki er hægt að kenna veðri um þar sem flest alvarleg slys og banaslys á landinu urðu í fyrra í júlí og ágúst, eða 62. Af þeim banaslysum sem urðu á landinu öllu má rekja 10 til ofsaaksturs og verður eftirlit lögreglu með hraðakstri aukið verulega á næstu mánuðum.
Þá létust átta af völdum ölvunaraksturs en banaslys sökum ölvunar hafa ekki verið eins mörg í áratugi, að því er fram kemur í skýrslu Umferðarstofu um umferðarslys á Íslandi í fyrra. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að auka umferðaröryggi til ársins 2016 og þá meðal annars að fækka tölu látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni að jafnaði um 5% til ársins 2016.
Samanburður við Norðurlönd leiðir í ljós að á Íslandi létust 8,4 að meðaltali á hverja 100.000 íbúa á árunum 1997-2006, sem er hæst allra Norðurlanda. Danmörk kemur þar næst með 7,8 látna á hverja 100.000 íbúa.