Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir brot á náttúruverndarlögum og reglugerð um akstur í óbyggðum með því að hafa ekið sex hjóla jeppa utan vegar á Skeiðarársandi og valdið þar skemmdum. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að leiðin sem maðurinn ók teldist vegur í skilningi náttúruverndarlaga.
Í dómi Hæstaréttar var litið til þess að umrædd leið hefði lengi verið kunnur slóði og ekin á árum áður til selveiða og til að safna saman rekaviði. Þá lá fyrir að maðurinn og félagar hans hefðu um áratuga skeið farið þessa leið vegna leitar að gulli í flaki hollensks Indíafars, sem talið er grafið í sandinum, og meðal annars notið liðsinnis Orkustofnunar við þá leit. Loks var litið til þess að slóðinn er merktur inn á kort sem var unnið og gefið út af Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins og Landmælingum Íslands árið 1988, og almenningur getur nálgast.
Héraðsdómur Austurlands hafði áður fundið manninn sekan og sektað hann um 50 þúsund krónur.