Verktakar á vegum Framkvæmdasviðs Reykjavíkur vinna nú að því að fylla með grjóti skarðið sem myndaðist í brimvarnargarðinum við Ánanaust í Reykjavík sem sagt var frá í fréttum Vefvarps Morgunblaðsins í dag. Samkvæmt tilkynningu frá Framkvæmdasviðinu mun því verki ljúka fyrir kvöldflóðið sem nær hámarki klukkan 9 í kvöld.
Næstu daga verður á vegum Framkvæmdasviðs unnið að hreinsun svæðisins.
Hækkun varnargarðs í undirbúningi
Að jafnaði hefur sjór gengið á land á þessum stað á um 5 ára fresti. Að undanförnu hefur það gerst oftar. Ólafur Bjarnason aðstoðarsviðsstjóri Framkvæmdasviðsins sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að til stæði að styrkja varnargarðinn með því að hækka hann um það bil um 1 metra.
Samkvæmt tilkynningu frá Framkvæmdasviðinu er fjárveiting til að hefja framkvæmdir á þessu ári.