Íbúar í austari hverfum Reykjavíkur hafa í vetur fundið hveralykt þegar vindur blæs af jarðhitavirkjununum austur af borginni. Hveralyktin stafar af brennisteinsvetni (H2S) sem berst upp með heitri gufu úr borholum virkjananna og sleppur út í andrúmsloftið.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar hafa nú verið settar inn ítarlegar upplýsingar um mælingar og áhrif af brennisteinsvetni í andrúmslofti, bæði hérlendis og erlendis.
Í febrúar 2006 hóf Reykjavíkurborg mælingar á brennisteinsvetni til að vakta áhrif virkjanaframkvæmda á Hellisheiði á loftgæði. Mælingarnar fara fram í sameiginlegri loftmælistöð Umhverfissviðs Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar.
Niðurstöður mælinganna sýna aukningu brennisteinsvetnis frá því í september 2006, en þá voru holur Hellisheiðarvirkjunar látnar blása og þær prófaðar. Virkjunin var formlega gangsett í október. Umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni í andrúmslofti hafa ekki verið sett í íslenskum reglugerðum en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út sólarhringsmeðaltalið 150 míkrógrömm í rúmmetra sem ráðleggjandi viðmið fyrir heilsuverndarmörk. Ekki er talið að alvarleg heilsufarsáhrif komi fram fyrr en að styrkur brennisteinsvetnis er orðinn hundrað sinnum hærri en viðmiðun WHO, en þau áhrif byrja sem sviði í augum. Samkvæmt mælingum náði styrkur brennisteinsvetnis hæst um þriðjungi af viðmiðun WHO árið 2006, eða 46 míkrógrömmum í rúmmetra þann 31.október. Í ár hefur hæsti sólarhringsstyrkur fram að þessu mælst um 59 míkrógrömm í rúmmetra þann 6.febrúar.