Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vísaði í gær frá kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.
Var kærunni vísað frá á þeim forsendum að Náttúruverndarsamtök Íslands eigi samkvæmt lögum aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála, og hafi því ekki lagalegar forsendur til að kæra þetta umdeilda framkvæmdaleyfi.
Einnig segir nefndin að aðild kæranda geti ekki átt sér stoð í svonefndum Árósarsamningi, því hann hafi ekki hlotið fullgildingu.
Árni Finnsson, sem á sæti í stjórn samtakanna, segir að þessi niðurstaða þýði að bæjaryfirvöld í Kópavogi geti „farið sínu fram og brotið skipulagslög líkt og síðast hefur komið fram með landfyllingu á Kársnesi.“
„Jafnframt, á meðan Árósasamningurinn - sem meðal annars tryggir réttarstöðu almennings í umhverfismálum - hefur ekki verið fullgiltur hér á landi eru íslensk umhverfisverndarsamtök í mun verri aðstöðu til að beita sér en systursamtök þeirra í Evrópu.“