Kristinn Björnsson, fv. forstjóri Skeljungs hf., hefur sent Morgunblaðinu eftirfarandi yfirlýsingu:
Í hita leiksins í viðtali mínu við viðmælanda minn í Kastljósi sjónvarpsins gáði ég ekki að mér að botna almennilega þá hugsun mína að ekkert væri óeðlilegt við sjálfsögð samskipti á milli forráðamanna fyrirtækja í sömu starfsgreinum. Þess vegna hefur sá misskilningur vaknað að ég sé að gera því skóna að eitthvað sé athugavert við samskipti viðskiptabanka sín á milli eða hjá matvöruverslunum. Ég vil leiðrétta þann misskilning. Ég tel þvert á móti að svo sé ekki og kem því hér með á framfæri. Rétt eins og það var ekkert óeðlilegt, að mínu mati, að forstjórar Skeljungs og Esso ræddu sín á milli á nefndu tímabili um sameiginlegar eignir eins og olíustöðina í Örfirisey eða forstjórar allra félaganna um sameiginlegar fasteignir á Keflavíkurflugvelli, svo einhver dæmi séu nefnd.
Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., skrifar grein í Mbl. og Fbl. í dag og talar í hæðnistóni um mig og mína persónu. Mín vegna má hann það. Ég óska honum og fyrirtækjum undir hans stjórn alls góðs. Finnur er öflugur stjórnandi, kotroskinn og fumlaus. Mér þykir miður að hafa komið honum úr jafnvægi með orðum mínum. Misskilningur hans um einhverja smjörklípu af minni hálfu er hér með leiðréttur.