Safalinn styrkir Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar

Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Safalans, og Oddur Einar Kristinsson, skólastjóri Björgunarskóla …
Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Safalans, og Oddur Einar Kristinsson, skólastjóri Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Í tilefni af 30 ára afmæli Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar fékk hann á dögunum til ráðstöfunar tæki til æfinga í snjóflóðaleit. Það er heildverslunin Safalinn sem flytur inn svokallaða snjóflóðaýla sem hafði milligöngu um komu tækisins hingað til lands.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu að tækið, Pieps ART (Advanced Rescue Training), sé góð viðbót við kennsluaðferðir Björgunarskólans. Það samanstendur af 6 sendum og stjórnborði og með því er hægt að setja upp og stýra æfingum þar sem líkt er eftir því að allt að 6 manns með snjóflóðaýla hafi lent í snjóflóði. Þannig eykur það öryggi og bætir þjálfun björgunarsveitafólks og annarra sem sækja námskeið skólans í snjóflóðamati og leit.

Allir sem fara til fjalla að vetri til ættu að bera á sér snjóflóðaýli. Snjóflóðaýlir er lítill sendir og móttakari sem fjallamenn festa á sig og stilla á sendingu þegar gengið er til fjalla. Ef einn eða fleiri úr hópnum grafast í snjóflóði geta aðrir í hópnum stillt sína ýla á móttöku og á fáeinum mínútum fundið þann eða þá sem grófust.

Til eru fjölmörg dæmi um það að slíkir sendar hafi bjargað mannslífum. Til að byrja með og fram á síðustu ár voru notendur snjóflóðaýla hér á landi aðallega fjallaklifrarar og björgunarsveitafólk en nú hefur vélsleðafólk bæst í hópinn, enda sleðar stöðugt öflugri og færir um að bera eigendur sínar í mun hættulegri brekkur en áður var. Segja má að allir sem ferðast um fjalllendi að vetri til ættu að eiga og nota snjóflóðaýla enda eru mestu líkurnar til að fólk bjargist úr snjóflóðum á fyrstu mínútunum eftir að flóð stöðvast. Eftir það minnka lífslíkur þeirra mjög hratt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert