Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið konu með glerglasi í andlitið með þeim afleiðingum að það brotnaði úr fimm tönnum hennar, auk þess sem hún hlaut fjögur hruflsár á hálsi og sár og bólgu á neðri vör á skemmtistað við Klapparstíg á síðasta ári. Var honum jafnframt gert að greiða konunni 546.034 krónur auk vaxta í skaðabætur.
Samkvæmt framburði ákærða og vitna var aðdragandi þess sá að konan flissaði er ákærði hellti yfir sig úr bjórglasi. Manninum og vitnum ber ekki saman um það hvort til orðaskipta hafi komið á milli þeirra eða hvort hún hafi hellt úr glasi sínu yfir ákærða áður en hann sló hana.
Með hliðsjón af játningu mannsins, sem er í samræmi við framburð vitna og læknisfræðileg gögn, er sannað að hafi hefur gerst sekur um líkamsárás, að því er segir í dómsorði héraðsdóms.
Maður er fæddur árið 1974. Samkvæmt sakavottorði hlaut hann á árinu 1996 skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir eignaspjöll, líkamsárás og þjófnað. Árið 1997 hlaut hann skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir líkamsárás. Þá gekkst hann á sama ári undir viðurlagaákvörðun vegna fíkniefnalagabrots. Til refsiþyngingar kemur að atlaga mannsins var hættuleg þar sem hann sló brotaþola í andlitið með glasi sem brotnaði og hending ein að ekki fór verr.
Til refsilækkunar horfir að langt er um liðið síðan maðurinn gerðist sekur um refsiverða háttsemi og hafa fyrri brot hans því ekki þýðingu nú. Þá hefur hann játað brot sitt. Við ákvörðun refsingar er enn fremur að líta til þess að hann hefur samþykkt greiðslu skaðabóta en leggur í mat dómsins ákvörðun miskabóta. Maðurinn hefur frá því að hann framdi brot sitt tekið sig á, sýnt iðrun og vilja til að bæta sig. Hann hefur leitað sér aðstoðar vegna fíkniefnavanda síns, samkvæmt héraðsdómi.