XXI. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga telur að flutningur reksturs framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga hafi margvíslega kosti í för með sér og má í því sambandi sérstaklega nefna sveigjanleg skil skólastiga. Landsþingið hvetur menntamálaráðherra til þess að taka jákvætt í hugmyndir sveitarfélaga um að taka yfir rekstur framhaldsskóla í tilraunaskini og hefja sem fyrst undirbúning þess verkefnis í samvinnu við sveitarfélögin, að því er segir í ályktun landsþingsins.
„XXI. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir að heildstæðum flutningi verkefna á sviði velferðar-, félags- og menntamála frá ríki til sveitarfélaga verði hrundið af stað tafarlaust. Undirbúningur flutnings á þjónustu við aldraða, fatlaða og rekstur framhaldsskóla og heilsugæslu þolir enga bið.
Efling sveitarstjórnarstigsins og leiðrétting tekjustofna er forsenda heildstæðrar og markvissrar nærþjónustu - brýnustu mál byggða allt í kringum landið og jafnframt hornsteinn farsællar borgarstefnu," að því er segir í ályktun landsþingsins.