orsi@mbl.is
Segja má að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafi skyggnst inn í heldur óvanalegan starfsheim lögreglunnar í vikunni, sem ekki er sýnilegur almenningi frá degi til dags, eða í hvaða flokk fellur sú athöfn að standa frammi fyrir undirmanni sínum og láta hann sprauta á sig sjálfsvarnarúða, öðru nafni maseúða?
Lögreglumenn bera á sér slíkan úða í litlum brúsum sem sjálfsvarnartæki og hefur stundum þurft að beita þeim í átökum við fólk.
Samkvæmt reglum frá ríkislögreglustjóra þurfa allir lögreglumenn að ganga í gegnum þá reynslu að láta sprauta á sig varnarúða og þar sem lögreglustjórinn sjálfur hafði ekki prófað varð eigi undan vikist. Stillti hann sér upp og fékk vægast sagt ríflega gusu í andlitið.
"Þetta var afar óþægilegt," sagði hann. "Maður er lengi að jafna sig og maður getur ekki opnað augun af neinu viti fyrr en eftir 10–15 mínútur. Þessu fylgir mikill sviði en þó er úðinn alveg hættulaus, því um er að ræða lífrænan piparúða. Hann er fyrst og fremst óþægilegur en ekki skaðlegur."
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.