Yfirlýsing frá Davíð Oddssyni

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson mbl.is/Golli

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Davíð Oddssyni:

„Í Fréttablaðinu þann 21. mars birtist eftirfarandi klausa við hlið leiðara blaðsins skrifuð af starfsmanni þess:

"Rangar ákvarðanir eða engar. Davíð Oddsson seðlabankastjóri ku víst ekki alveg vera fullsáttur við félaga sína í Sjálfstæðisflokknum nú hvað varðar hagstjórnina. Sú saga gengur núna um bæinn að Davíð hafi sagt nýlega að margt sé líkt með þeim feðgum Matthíasi Á. Mathiesen og Árna Mathiesen. Eitt sé þó ólíkt með þeim. Matthías hafi aldrei getað tekið ákvarðanir, heldur endalaust velt möguleikum fyrir sér. Árni geti hins vegar tekið ákvarðanir. Því miður séu þær allar rangar."

Naumast þarf að taka fram að þetta er uppspuni frá rótum og ekkert einasta efnisatriði satt. Ég hef til þessa ekki leiðrétt eða gert athugasemdir við neitt það sem ósatt er sagt um mig í miðlum af þessu tagi, enda yrði það mjög tímafrekt. Mér þykir þó lakara, þegar slettur sem eru mér ætlaðar, lenda á vinum mínum, sem ég met mikils. Lesendur höfðu skilið það svo að gert væri ráð fyrir að lítt birtingarhæft efni yrði fremur haft í Dagblaðinu en Fréttablaðinu, þar sem því síðara er troðið inn á heimili fólks, sem ekkert vill hafa með það að gera og hefur jafnvel á því skömm. En nú virðist sem móðurfélagið hafi ákveðið að gera ekki upp á milli þessara barna sinna. Sjálfsagt getur verið af þessu hagræðing sem er reynandi, ef margvísleg hagræðing á sannleikanum hefur ekki skilað þeim fjárhagslega árangri sem að var stefnt."„

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert