Nýtt hesthús var vígt og tekið í notkun á háskólahátíð Hólaskóla í gær, sem mun vera eitt það stærsta hérlendis undir einu þaki, en gólfflötur þess er um 3350 fm. Það er fyrirtækið Hesthólar ehf. sem á húsið og reisti það en leigir Hólaskóla til afnota. Í húsinu eru um 200 stíur fyrir hesta, auk allrar aðstöðu og 800 fm. reið- og kennsluvallar í suðurenda hússins.
Hesthúsið þykir mikill fengur fyrir skólann og alla starfsemi hans og gefa möguleika á að fjölga nemendum í hrossaræktardeild til muna, en á undanförnum árum hefur orðið að vísa nemendum frá skólanum vegna aðstöðuleysis.
Að mati skólayfirvalda mun þessi aðstaða gera kleift að vera með um 100 nemendur árið 2010.