andri@mbl.is
KAPPDRYKKJA virðist vera að komast í tísku, segir Matthías Halldórsson landlæknir sem séð hefur ástæðu til að rita varnaðarorð vegna þess á vefsvæði sínu. Á sama tíma er auglýst "stærsta og flottasta drykkjukeppni á landinu" og mun hún fara fram á skemmtistaðnum Pravda í kvöld. Þar bera þátttakendur alla ábyrgð á eigin heilsu og hegðun – hvort sem er í keppninni sjálfri eða þegar líða tekur á kvöldið.
Keppnin ber enska nafnið "So you think you can drink" og samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hennar hefjast leikar um kvöldmatarleytið. Þar kemur einnig fram að þrír keppendur séu í liði og markmiðið; að drekka áfengið sem í boði er á sem skemmstum tíma. Bæði á að teyga bjór og snafsa og er í einum lið keppninnar notast við trekt. Sá er stendur uppi sem sigurvegari mun hljóta titilinn "Drykkjumeistari Íslands".
"Við heyrðum að keppnin var auglýst á skemmtistað í bænum og það hefur verið hringt í okkur og spurt hvort þetta sé hættulaust," segir Matthías og áréttar að kappdrykkja sé ekki hættulaus og ekkert skemmtilegt sé við þær afleiðingar sem geta orðið af snöggri ofdrykkju. Þar bendir hann á uppköst, en hættulegt er þegar innihald maga fer ofan í lungu. "Einnig getur mikil ofdrykkja á stuttum tíma lamað öndunarmiðstöð heilans og leitt til dauða," segir Matthías.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.