Telja mögulegt að lækka fóðurkostnað í þorskeldi

Þorskur.
Þorskur. Reuters

Mögulegt er að lækka fóðurkostnað í þorskeldi verulega með nýrri samsetningu af fóðri, samkvæmt niðurstöðum rannsókna Matís og samstarfsaðila. Niðurstöður rannsókna sýna að lækka má kostnað á fóðri fyrir eldisþorsk um að minnsta kosti 25%, sem þýðir 12-15% lækkun framleiðslukostnaðar í þorskeldi.

Niðurstöður rannsóknanna hafa þegar verið nýttar að hluta við fóðurframleiðslu hjá Laxá hf. og eru þær sagðar mikilvægt skref í átt að því að gera eldi á þorski arðbærara.

Niðurstöður tilraunanna hér á landi sýna að hægt er að nota lægra hlutfall af próteini í fóðrið en áður var talið, án þess að það komi niður á vexti fiskanna. Mest af próteinum í fóðrinu kemur úr hágæða fiskimjöli og hefur hátt verð á fiskimjöli orðið til þess að verð á fiskafóðri hefur hækkað og afkoma fiskeldisfyrirtækja versnað, að því er segir í tilkynningu frá Matís. Tilraunirnar sýni að hægt er að skipta út hluta af fiskimjölinu í fóðrinu með ódýrari próteinum úr jurtaríkinu og lækka þannig fóðurverðið enn frekar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert