Fáar konur en margir ómenntaðir taka þátt í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi

Geir H. Haarde forsætisráðherra við kynningu GEM-skýrslunnar í morgun.
Geir H. Haarde forsætisráðherra við kynningu GEM-skýrslunnar í morgun.

Þátttaka kvenna í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi er mun minni en karla og fer minnkandi, samkvæmt því sem fram kemur í árlegri skýrslu um alþjóðlega rannsókn á frumkvöðlastarfsemi GEM (Global Entrepreneurship Monitor) sem kynnt var í dag. Einungis 25% þeirra sem stunduðu frumkvöðlastarfsemi á Íslandi árið 2006 voru konur og voru karlar þrisvar sinnum líklegri en konur til þess að taka þátt í frumkvöðlastarfsemi.

Árið 2005 tóku 11,3% þjóðarinnar á aldrinum 18–64 ára þátt í frumkvöðlastarfsemi, eða um það bil 20 þúsund manns. Um 8% þjóðarinnar á aldrinum 18-64 ára, eða um 15 þúsund manns, unnu að undirbúningi nýrrar viðskiptastarfsemi hér á landi á síðasta ári og er það talsvert hærra hlutfall en í öðrum sambærilegum hátekjulöndum. Hlutfall frumkvöðla hefur farið hækkandi hér á landi á síðustu árum og árið 2006 var umfang frumkvöðlastarfsemi á Íslandi meira en í flestum öðrum löndum í heiminum. Var það nokkuð meira en í hátekjulöndunum í heild, talsvert meira en annars staðar á Norðurlöndunum að Noregi undanskildum og sambærilegt við Bandaríkin.

Það vekur hins vegar athygli að þátttaka íslenskra kvenna í frumkvöðlastarfsemi er sú lægsta í samanburðarlöndunum. Þá vekur athygli að óvenju lágt hlutfall þeirra sem stunda frumkvöðlastarfsemi á Íslandi hefur lokið háskólaprófi í samanburði við önnur hátekjulönd.

Einnig kemur fram í skýrslunni að fleiri frumkvöðlar búa á höfuðborgarsvæðinu en utan þess, en líkur á þátttöku í frumkvöðlastarfi virðast þó ekki fara eftir búsetu.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að væntingar íslenskra frumkvöðla um útrás eru meiri en annars staðar á Norðurlöndum og að þekkingariðnaður hefur mun minna vægi í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi en í öðrum hátekjulöndum. Algengast er að frumkvöðlastarfsemi hér á landi sé á sviði iðnaðar og samgangna eða tilheyri frumatvinnuvegunum.

Sérfræðingar sem leitað var til segja aðgangur að grunnaðstöðu, menningar-og samfélagslegar venjur, stefna stjórnvalda og grunnstoðir viðskiptalífsins helst vera það sem ýti undir frumkvöðlastarfsemi hér á landi en skort á áhættufjármagni vera helsta veikleika íslenska umhverfisins.

Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent við HR og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum hafði umsjón með útgáfu og kynningu skýrslunnar sem var kynnt á morgunverðarfundi í Háskólanum í Reykjavík í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert