Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur

Sigurður Tómas Magnússon er settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu.
Sigurður Tómas Magnússon er settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, sagði í málflutningi í Baugsmálinu í dag, að framburður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, fyrir dómnum gæti ekki talist trúverðugur. Sagði Sigurður Tómas, að Jón Ásgeir hefði snúið út úr spurningum og sett á sömu ræðu aftur og aftur. Þá hefði hann svarað spurningum með öðrum spurningum eða almennt með því að vísa til ýmissa aðila, sumra óskilgreindra eins og framkvæmdastjórnar Baugs, sem hefði í raun ekki verið til.

Tók Sigurður Tómas dæmi um samning um kaup Jóns Ásgeirs á öllu hlutafé Fjárfars en Jón Ásgeir hefði ekki getað skýrt þennan samning með nokkrum hætti. Þá hefði framburður hans verið í beinni mótsögn við framburð annarra vitna, jafnvel vitna sem ættu að vera honum hliðholl. Hefði Jón Ásgeir neitað að hafa tekið ákvarðanir um rekstur Fjárfars, þótt fjöldi vitna, þar á meðal faðir hans, hefðu borið um hið gagnstæða.

Þá hefði Jón Ásgeir ekkert kannast við fyrirtækið Miramar og efast um að það væri til þótt Tryggvi Jónsson hefði staðfest tilvist þess.

Sigurður Tómas sagði hins vegar, að framburður Tryggva og Jóns Geralds Sullenbergers fyrir dómi væri í samræmi við framburð sakaðra manna sem væru að reyna að bera af sér sakir.

Tölvupóstar mikilvæg gögn
Sigurður Tómas fjallaði nokkuð um tölvupósta og sönnunargildi þeirra. Sagði hann að rafrænt skjal, sem finnst í tölvu manns væri jafngilt prentuðu skjali og fundarstaður þess segði mun meiri sögu um skjalið en útprentun af því. Ef skjal finnist í tölvu tiltekins manns bendi til þess, að sá hafi búið það til eða tekið á móti því. Þá segði það enn meiri sögu ef með fylgdi skeytishaus sem geymir sögu þess.

Sigurður Tómas sagði, að tölvupóstar gætu verið nánast fullnaðarsönnum um hvað hafi farið á milli manna. Auðvitað væri unnt að falsa tölvupósta eins og peningaseðla. En fram hefði komið fyrir dómi, að það er ekki á færi hvers sem er og það væru einkum tölvunördar og hakkarar og fólk sem byggi til dreifipóst sem geti falsað slíka pósta.

Sigurður Tómas sagði, að þótt unnt væri að falsa gagn drægi það ekki úr sönnunargildi skjalsins. Það væri ekki fyrr en vísbendingar kæmu fram um fölsunina sem hægt væri að draga það í efa..

Sigurður Tómas sagði, að við rannsóknir hefði ekki fundist neinar vísbendingar um að tölvupóstar, sem lagðir hafi verið fram í málinu, væru falsaðir eða að brotist hefði verið inn í tölvur eða tölvukerfi sem kæmu við sögu. Þá hefðu tilraunir verjenda sakborninga til að sýna fram á hve auðvelt væri að falsa tölvupósta ekki verið trúverðugar. Fölsunartilraun, sem gerð var fyrir saksóknara sýndi, að afar erfitt væri að falsa tölvupósta og ekki á færi nema sérfræðinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert