Sól í Straumi segja Alcan í framboði án mótframboðs

Álver Alcan í Straumsvík
Álver Alcan í Straumsvík mbl.is/ Kjartan Þorbjörnsson

Samtökin Sól í Straumi, grasrótarsamtök íbúa í Hafnarfirði sem berjast gegn stækkun álversins í Straumsvík, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau mótmæla harðlega framgöngu Alcan í kosningabaráttunni í Hafnarfirði undanfarna daga. Segja þau Alcan ekki hafa komið heiðarlega fram varðandi upplýsingagjöf í málinu og að framganga Alcan í deiliskipulagsmálinu sé í raun framboð án mótframboðs. Yfirlýsing samtakanna fer í heild sinni hér á eftir:

Framboð án mótframboðs - óheiðarleg upplýsingagjöf Alcan til Hafnfirðinga

Samtökin Sól í Straumi, grasrótarsamtök íbúa í Hafnarfirði sem berjast gegn stækkun álversins í Straumsvík, mótmæla harðlega framgöngu Alcan í kosningabaráttunni í Hafnarfirði undanfarna daga.

Við sem bæjarbúar teljum okkur eiga kröfu á heiðarlegum og réttum upplýsingum um stækkunarmálið. Það er fyrirtækið sjálft sem leitar til okkar með beiðni um brautargengi deiliskipulagstillögunnar og við gerum þá kröfu að fyrirtækið gangi heiðarlega fram og kynni beiðni sína fyrir bæjarbúum án útúrsnúninga og blekkinga.Alcan er ekki stjórnmálaflokkur heldur alþjóðlegt stórfyrirtæki með 65.000 starfsmenn og veltir 1,5 földum þjóðartekjum Íslendinga árlega.

Það er ekki heiðarlegt að:

- kynna mengunaraukninguna við stækkun á álverinu í mengunartölum á hvert tonn af framleiddu áli. Það er auðvitað aukning á mengunarlosun frá álverinu sem skiptir Hafnfirðinga máli en ekki einhverjar innanhúss reiknistærðir. Mengunarlosun mun aukast mikið við stækkun og það ber að kynna fyrir bæjarbúum.

- fá fulltrúa Samtaka Atvinnulífsins til þess að segja Hafnfirðingum að í kringum álver spretti upp sprota og þekkingarfyrirtæki (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007) þegar staðreyndin er sú að þau 40 ár sem Ísal/Alcan hefur starfað í Hafnarfirði hafa einungis þrjú fyrirtæki orðið til vegna starfsemi álversins (heimild: www.alcan.is). Aðeins eitt af þessum þremur fyrirtækjum má kalla sprotafyrirtæki.

- breyta eftir á svörum til bæjarbúa um stækkunarmálið á heimasíðu fyrirtækisins til þess að reyna að draga úr trúverðugleika þeirra bæjarbúa sem eru andvígir stækkun og vitnað hafa í svör fyrirtækisins (26. febrúar 2007, fjöldi birgja í Hafnarfirði úr 50 í 104 og yfirlýsing um áframhaldandi góðan rekstur þó ekki verði af stækkun breytt í bölspá um afleiðingar höfnunar stækkunarinnar.)

- kynna niðurstöður úr mengunarmælingum á brennisteinsdíoxíð sem ársmeðaltöl og bera það saman við heilsuverndarmörk í sólahringsgildum og halda því fram að mengunin megi tvöhundruðfaldast til þess að ná heilsuverndarmörkum.Að auki byggja tölur Alcan aðeins á hluta af gögnum eins árs og er tala þeirra undir ársmeðaltali síðustu fjögurra ára, sbr.gögn á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

- halda því fram við Hafnfirðinga að álframleiðsla allstaðar annarstaðar í heiminum en í Hafnarfirði valdi stórkostlegum útblæstri gróðurhúsaloftegunda en útblástur í Hafnarfirði sé næsta enginn (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Rétt er að 55% af allri álframleiðslu í heiminum er með vatnsorku og talið eru að hlutfall kolaorku í framleiðslunni muni ekki aukast í náinni framtíð (heimild: http://www.world-aluminium.org/environment/electric.html ).

- sýna Hafnfirðingum glansmyndir af stækkuðu álveri án línumannvirkja, skorsteina og turna í fullri stærð og annars útbúnaðar sem þarf til þess að hægt sé að reka álver (DVD diskur borinn út í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Heiðarlegt væri að segja Hafnfirðingum eins og er að hönnun liggur ekki fyrir og því er óvitað hvernig húsin og svæðið í kring koma til með að líta út ef af stækkun verður (sbr. upplýsingar frá Agli Guðmundssyni starfsmanni Arkís í Bæjarbíó 8. mars 2007, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/ 15.mars). Háir skorsteinar gætu orðið landvættir í Hafnarfirði líkt og á Reyðarfirði.

- gera starfsmenn sína út af örkinni til þess að ræða í persónulegum samtölum við grunlausa Hafnfirðinga um þetta viðkvæma mál og skrá upplýsingar úr þessum persónulegu samskiptum í miðlægan gagnagrunn án leyfis og eftirlits Persónuverndar.

- lofa Hafnfirskum fjölskyldum 250 þúsund króna í viðbótartekjur á ári á sama tíma og eini óháði aðilinn sem fjallað hefur um fjárhagsleg áhrif stækkunarinnar segir að ábatinn af stækkun gæti orðið 6-8.000 krónur á mann á ári. (Hagfræðistofnun Íslands, Kostnaður og ábati af hugsanlegri stækkun álvers, mars 2007). Alcan gengur svo langt að blanda saman niðurstöðum Hagfræðistofnunnar og áróðursgögnum frá Samtökum Atvinnulífsins og kynna niðurstöðuna í nafni Hagfræðistofnunnar í auglýsingum. Fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar hefur kynnt þá stefnu bæjaryfirvalda að allar viðbótartekjur bæjarins á næstu árum fari til greiðslu langtímaskulda (fundur í Bæjarbíó 22. mars, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/ ) og því ábyrgðarlaust að vekja vonir í hugum bæjarbúa um viðbótartekjur til heimilanna í bænum.

Framganga Alcan í deiliskipulagsmálinu er í raun framboð án mótframboðs. Sól í Straumi skorar á fjölmiðla að skoða stækkunarmálið í Straumsvík gagnrýnum augum þessa síðustu daga fyrir kosningar og draga fram hlutlausa mynd af málinu.

Þó svo að Alcan geti með áhrifum sínum, stórri auglýsingaherferð og hjálp góðvina sinna hjá Samtökum Atvinnulífsins haldið rangfærslum og hálfsannleik að bæjarbúum þurfum við Hafnfirðingar og Alcan að geta búið hér áfram í sátt og samlyndi hvernig sem kosningarnar fara um ókomin ár. Óheiðarleg framsetning á upplýsingum um málið þessa síðustu daga fyrir kosningar eru til þess fallnar að skapa andúð bæjarbúa á fyrirtækinu til frambúðar. Sól í Straumi hvetur Alcan á Íslandi til þess að hafa það í huga og skorar á fyrirtækið að leiðrétta þær rangfærslur sem settar hafa verið fram og setja heiðarleikann í öndvegi þá daga sem eftir eru fram að kosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert