Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gaf í dag út skýrslu um stöðu og endurskoðun á markmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010. Í henni er gerð grein fyrir hvernig gengið hefur að ná upphaflegum markmiðum og fjallað er um breytingar sem nauðsynlegt er að gera á áætluninni. Ennfremur hafa verið sett ný markmið er miða að því að draga úr offitu og ofþyngd, auk víðtækari markmiðssetningar í krabbameinsvörnum.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, telur mikilvægt að á næstu misserum verði ráðist í gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar sem ætlað er að leysa núgildandi áætlun af hólmi í byrjun næsta áratugar. Breytingar sem orðið hafa á heilbrigðisþjónustunni og kröfur sem gerðar eru til starfseminnar kalla á mikla og vandaða undirbúningsvinnu við gerð næstu heilbrigðisáætlunar. Gera má ráð fyrir að sú vinna taki tvö til þrjú ár, samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu.
Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var samþykkt sem þingsályktun á Alþingi í maí árið 2001. Áætlunin grundvallast m.a. á samþykkt alþjóðaheilbrigðisþingsins árið 1998 um heilbrigði allra á 21. öld, Evrópuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og annarri veigamikilli stefnumótun stofnunarinnar.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að frá samþykkt heilbrigðisáætlunarinnar árið 2001 hefur athyglin beinst í auknum mæli að ýmsum vaxandi heilsufarsvandamálum og orsökum þeirra. Má þar m.a. nefna offitu og ofþyngd, átröskun, áfengisvanda, fíkniefnavanda og margvísleg geðheilbrigðisvandamál.
Jafnframt er þess krafist að hugað sé betur að stöðu einstakra þjóðfélagshópa, sérstaklega aðstæðum barna, ungmenna og aldraðra borgara þessa lands. Til loka þessa áratugar verður því lögð meiri áhersla á markvissari forvarnir og eflingu lýðheilsu auk aðgerða sem bæta eiga stöðu þeirra sem höllum fæti standa í heilsufarslegu tilliti.
Fram kemur í tilkynningu að á sviði áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarna kemur í ljós að áfengis- og vímuefnaneysla hjá ungu fólki hefur minnkað og reykingar dragast saman í öllum aldursflokkum. Áfengisneyslan í heild hefur hins vegar vaxið hin síðari ár og þar fjarlægjumst við sett markmið.
„Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni hefur aukist og dregið hefur úr slysadauða barna. Aftur á móti höfum við fjarlægst þau markmið sem sett voru í tannheilsumálum barna og nákvæmar tölulegar upplýsingar vantar um slys og heilsufar barna eftir þjóðfélagsstöðu.
Biðtími eldri borgara eftir vistun á hjúkrunarheimili hefur minnkað, fleiri búa lengur heima með viðeigandi stuðningi og tannheilsa aldraðra fer batnandi. Upplýsingar vantar um mjaðmar- og hryggbrot meðal aldraðra.
Í geðheilbrigðissviði er tíðni sjálfsvíga svipuð því sem verið hefur en heildaralgengi geðraskana hefur aðeins lækkað.
Á sviði hjarta- og heilaverndar hefur settum markmiðum þegar verið náð og vel miðar við að draga úr tíðni heilablóðfalla.
Krabbameinsvarnir og árangursríkari meðferð krabbameina hafa leitt til þess að dregið hefur úr dánartíðni vegna krabbameina hjá fólki undir 75 ára aldri.
Auknar og skipulegri slysavarnir hafa leitt til þess að dregið hefur úr slysum og slysadauða," samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.