Fjölmargar ástæður fyrir refsiþyngingu

Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, í héraðsdómi í dag.
Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, í héraðsdómi í dag. mbl.is/G. Rúnar

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, lauk málflutningsræðu sinni í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur nú á fimmta tímanum og fór talsvert fram yfir þann tíma sem áætlaður var. Sagði hann m.a. í lok ræðu sinnar, að við ákvörðun refsingar yrðu dómarar að líta til þess, að brot sakborninga væru öll ófyrnd og fjölmargar ástæður væru fyrir refsiþyngingu gagnvart Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni.

Sigurður Tómas fór eftir hádegið yfir notkun Tryggva á greiðslukorti frá Nordica, sem Baugur greiddi af, en ákært er vegna úttekta sem nema samtals um 1,3 milljónum króna. Þá fjallaði hann ítarlega um reikninga sem Baugur greiddi og voru samkvæmt ákæru vegna lána og rekstrar skemmtibátsins Thee Viking.

Saksóknari sagði, að við ákvörðun refsingar Jóns Ásgeirs og Tryggva yrði að líta til þess, að brot þeirra væru öll ófyrnd og fjölmargar ástæður væru til refsiþyngingar. Þeir hefðu framið trúnaðarbrot með umtalsmiklum sjálfsafgreiðsluviðskiptum og fjárdrætti og brugðist með því trausti hluthafa Baugs og í mörgum tilvikum verðbréfamarkaðarins í heild. Þá væri um mjög háar fjárhæðir að ræða.

Einnig yrði að líta til þess, að háttsemi þeirra, eftir að rannsókn málsins hófs, væri ekki til þess fallin að draga úr refsingu því þeir hefðu ekki lagt sig fram um að upplýsa mál og leynd hefði hvílt yfir brotunum, sem væri til þess fallin að valda miklu tjóni.

Sigurður Tómas sagði, að brot Jóns Geralds Sullenbergers væri minna og hann hefði ekki haft persónulegan hag af því þótt það hefði gert öðrum sakborningum kleift að fremja brot. Þá hefði Jón Gerald stuðlað að því að ýmsir þættir málsins voru upplýstir og segja mætti, að hann hefði tekið á sig mikil skakkaföll.

Verjendur sakborninga hefja ræður sínar í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert